Skip to main content

Um mig og fyrirtækið

Sjálfstæður atvinnurekandi frá 1998

Ég er Auður Herdís Sigurðardóttir, fædd og uppalin í Skagafirði. Eftir fjölbreytt almenn störf í sveitinni og sunnan heiða opnaði ég hannyrðaverslunina Kompuna á Sauðárkróki árið 1998 og raka hana til 2012.  Ég byrjaði að vinna í Áskaffi sem var til húsa í svokölluðu Áshúsi í Glaumbæ sumarið 1997. Árið 2001 keypti ég reksturinn og rak Áskaffi til ársins 2021 þegar ég flutti mig yfir í Blönduhlíðina og nú er Áskaffi góðgæti staðsett í félagsheimilinu Héðinsminni, sem er við hringveginn, um 8 km frá Varmahlíð. 

Fjölbreytt vinna

Hér erum við stödd í kynningarbás Áskaffis á Atvinnulífssýningu í íþróttahúsinu á Sauðárkróki árið 2012. Herdís er að steikja pönnukökur. Vinstra megin við hana er Karen Jónsdóttir og til hægri er Valgerður Jakobína Hjaltalín sem stóðu vaktina frábærlega vel eins og allt mitt starfsfólk hefur gert í gegnum tíðina. Ég verð alltaf afskaplega þakklát þeim sem komu aftur og aftur, sumar eftir sumar, til að vinna með mér í Áskaffi í Glaumbæ og tóku með gleði á móti fjölda gesta sem komu og vildu gjarnan fá sér heitt súkkulaði og rjómapönnuköku, tertusneið eða steikt brauð með laxi, svo að dæmi séu tekin.

Áskaffi góðgæti  

Vörumerkið var tekið í notkunn árið 2021 og seldar eru vörur framleiddar undir heitinu Áskaffi góðgæti.

Matarkistan Skagafjörður

Áskaffi góðgæti hefur verið samstarfsaðili frá árinu 2001.

ahsig ehf 2021

Veggirnir á húsinu voru gráir, samanber vísu Gísla frá Mikley:

Komi ég út að kveldi dags
klæddur í frakkann bláa.
Augun leita uppi strax
Akrahúsið gráa.

Héðinsminni.

Húsið Héðinshöll,  sem er elsti hluti Héðinsminnis, var byggt í minningu Skarphéðins Símonarsonar er drukknaði í Héraðsvötnum 15. nóvember 1914. Skarphéðinn og faðir hans Símon voru bændur í Litladal. Símon lagði peninga í sjóð til minningar um son sinn og fyrir þá peninga var húsið byggt. Héðinshöll, sem yfirleitt var kallað Akrahúsið eða Þinghúsið var vígt 1921. Það er þar sem núna er salurinn í Héðinsminni. Þrisvar sinnum hefur verið byggt við; 1961, 1990 og 1992. Akrahreppur, ungmennafélagið og kvenfélagið kostuðu viðbygginguna 1961. Hér í Þinghúsinu var byrjað að kenna árið 1932 og kennt til 1954 en þá var horfið að kennslu aftur á heimilum vegna þess að Akrahúsið þótti henta illa til kennslu, þá aðallega vegna kulda. Næstu árin áttu sér stað miklar umræður um framtíðarskólahúsnæði. Svo var tekin ákvörðun um að byggja við húsið og nota bæði sem skóla og félagsheimili. Árið 1961 var viðbyggingin tibúin og eftir það hefur húsið verið kallað Héðinsminni. Þetta sama haust 1961 hófst kennsla á ný í húsinu eftir sjö ára hlé og kallaðist hann Akraskóli. Mesti fjöldi nemenda til prófs í skólanum var árið 1966, þá 65 nemendur. Fjöldi nemenda skólaárið 1998-99 var 21 og fór fækkandi. Skólinn var lagður niður árið 2006 og í dag sækja nemendur leik- og grunnskóla í Varmahlíð.

Sveitarfélagið hefur gert fimm ára rekstrarsamningur (2023-2027) við ahsig ehf. og stefnt er að því að bjóða heimamönnum og ferðafólki að stoppa, njóta kyrrðar og nærast í huggulegu umhverfi.